Parlogis og Orange sameina krafta sína og sérþekkingu

October 24, 2016

 

Orange Project og Parlogis ehf. hafa gert með sér samstarfssamning sem sameinar krafta fyrirtækjanna á sérsviðum beggja og gerir þeim kleift að bjóða smærri heildsölum og sölufyrirtækjum fyrsta flokks þjónustu hvað varðar húsnæðislausnir, vörustjórnun og dreifingu.

 

Orange Project hefur í tvö ár boðið upp á tilbúnar skrifstofulausnir fyrir fyrirtæki sem sjá sér hag í að setja alla sína krafta í kjarnastarfsemina og spara fé og fyrirhöfn með því að losna við þá yfirbyggingu sem fylgir hefðbundnum skrifstofurekstri.

 

Samningur fyrirtækjanna felur í sér að Orange leigir skrifstofuhúsnæði að Skútuvogi 3 þar sem Parlogis rekur einnig rúmlega 3000 fermetra vöruhús fyrir þurrvörur, kælivörur og frystivörur. Húsnæðið verður tilbúið til leigu þann 1. nóvember og með þessu samstarfi Parlogis og Orange geta smærri heildsölur og sölufyrirtæki komið sér fyrir á einum stað með alla þá þjónustu sem þarf til rekstrarins. Allt frá húsnæðislausnum til sérhæfðrar vörustjórnunar.

 

Um er að ræða 19 fullbúin skrifstofurými, auk opinna rýma og fyrsta flokks fundarherbergja. Auk leigu á skrifstofurýmum mun fyrirtækjum jafnframt standa til boða þjónusta frá Parlogis á sviði vöruhýsingar, birgðastýringar, dreifingar, innflutnings, innheimtu o.fl. Hagkvæmnin sem fylgir því að láta þessi tvö sérhæfðu fyrirtæki sjá um alla þessa umgjörð er mikil og gefur viðskiptavinum Parlogis og Orange Warehouse tækifæri til þess að setja alla sína orku í kjarnastarfsemina.

 

„Við erum mjög spennt fyrir samstarfinu með Orange Project. Þjónusta Parlogis miðar fyrst og fremst að því að gera viðskiptavinum okkar kleift að einbeita sér að sölu- og markaðsmálum á meðan við sjáum um allt sem viðkemur því að koma vörum þeirra í hendur neytenda á eins hagkvæman hátt og mögulegt er. Að jafnaði erum við að dreifa yfir 700 pöntunum á dag frá vöruhúsum okkar að Krókhálsi og Skútuvogi fyrir u.þ.b. 40 íslensk og erlend fyrirtæki á borð við Icepharma, Lyfís, Beiersdorf, Icecare, W&H, Herbalife og Subway. Með samstarfinu við Orange geta fyrirtæki gengið enn lengra í útvistun á öðru en sölu- og markaðsmálum,“ segir Hálfdan Gunnarsson, forstjóri Parlogis.

 

„Þetta er flott og alveg ný lausn sem við getum nú boðið. Þessi tvö ár hjá Orange Project, þar sem við önnum vart eftirspurn eftir tilbúnum skrifstofulausnum, hef ég orðið var við að smærri fyrirtæki hafa þörf fyrir ýmsa aðra stoðþjónustu en lausnir í húsnæðismálum. Hér erum við að pakka saman öllu sem heildsölur og sölufyrirtæki þurfa í rekstri sínum án þess að leggja í miklar stofnfjárfestingar og borga þannig eingöngu fyrir þá þjónustu sem þau þurfa hverju sinni. Þessi lausn er einstök á Íslandi og við vitum ekki til þess að þetta þekkist neins staðar í Evrópu annars staðar en hér,“ segir Tómas Hilmar Ragnarz, framkvæmdastjóri og eigandi Orange.“

 

Please reload

Efni í tímaröð

September 2, 2016

September 1, 2016

September 1, 2016

Please reload

Efni í tímaröð
Please reload

www.png

© 2021  :  SKRIFSTOFUSETUR.COM